Fréttabréf vikunnar
  Fréttabréf Golfklúbbsins Serbergs
   Vikan:   28.5 -  3.6.

Dagskrá vikunnar:

Mánudagur:

Á mánudögum (í dag) eru fráteknir rástímar fyrir konurnar í klúbbnum frá klukkan 17:00 til 18:00.

Þriðjudagur:

Nýliðanámskeið í boði klúbbsins. Námskeiðið hefst klukkan 19:00. Á námskeiðinu, sem stendur yfir í 3 klukkustundir, verður farið yfir sveifluna, stutta spilið, púttin, helstu golfreglur og aðgengi að www.golf.is. Engin þörf á að skrá sig fyrirfram.

Strákarnir ætla sem fyrr að hittast á þriðjudögum klukkan 17:00 í sumar. Vegna nýliðanámskeiðsins byrja þeir eftir viku.

Miðvikudagur:

Innanfélagsmót: Forkeppni bikars – karlar og konur.

Í forkeppninni eru leiknar 9 holur. 16 efstu með forgjöf (punktar) komast áfram og leika útsláttarkeppni. Í útsláttarkeppninni eru leiknar 18 holur í hverri umferð.

Nánar um mótið á www.golf.is. Hægt verður að taka frá rástíma frá 15:00 til 18:00.

Föstudagur:

Eins og fram kom í síðasta pósti ætlum við að stofna hópinn „Velunnarar Setbergsvallar“. Hópurinn mun taka að sér ákveðin verkefni á vellinum, s.s. að mála það sem þarf að mála, nýframkvæmdir og fleira. Stofnfundurinn verður haldinn á laugardaginn klukkan 12:00. Á fundinum er ætlunin að ræða hugmyndir og skipuleggja starfið. Allir velkomnir.

Fréttir af starfinu síðustu daga:

Kvennastarfið hófst formlega á föstudaginn þegar konur úr klúbbnum hittust í golfskálanum og störtuðu starfinu.

Vallarmál:

Eftir að mörgu leyti erfiða byrjun er allt komið í „rútínu“ á vellinum. Beðið er færis með að sanda og yfirsá flatir og gata þar sem við á. Stefnt er að því að valta ákveðin svæði í vikunni. Enn er eitthvað í það að hægt verði að opna æfingasvæðið vegna bleytu.

Boltaför:

Í síðasta pósti var skorað á alla að laga boltaför á flötum. Enn er talsvert um að þetta sé ekki gert. Við biðjum félagsmenn vinsamlegast um að hafa flatargaffal ávallt með og laga förin.

Tilboð vikunnar hjá Siggu í skálanum:

Gos og snickers á 500 kr.

Veðrið:

Svali Frostason hefur kært brottvikningu sína. Hann segir að hann hafi bara í hálfkæringi sagt er hann var spurður út í veðrið, „já það verður bara fínt“ en hann hafi ekkert meint með því enda aldrei haft nokkurt einasta vit á veðri. Hann hafi t.d. í þrígang fengið kvef s.l. sumar vegna þess að hann hafi ekki klætt sig eftir veðri.

Málið verður flutt í vikunni.

Kylfingur vikunnar:

Jón Sigurðsson.

Kylfingur vikunnar er ljúflingurinn Jón Sigurðsson, einn af okkar allra bestu mönnum.

Jón hefur verið í klúbbnum frá árinu 1996 og spilar helst ekki minna en fjóra hringi á dag að meðaltali 😊 Jón tók að sér að vakta skálann og völlinn í vetur og gerði það mjög samviskusamlega. Færum við honum bestu þakkir fyrir það.

Jón sem er með 9 í forgjöf núna segist lægst hafa verið með 6 í forgjöf. Honum hefur nokkrum sinnum tekist að spila 9 holur á pari en besti 18 holu hringurinn er 2 yfir pari á Keilisvellinum. Jón hefur líka tekið að sér að leiðbeina kylfingum.

Jón segir að frá upphafi hafi honum liðið vel í Setbergsklúbbnum. Sú heimilislega og vinalega stemming sem ávallt hefur verið í fyrirrúmi hefur gert það að verkum að Setbergsvöllur hefur verið eins og annað heimili fyrir Jón.

Þegar Jón var spurður að því hver sé uppáhalds holan hans á vellinum þá var svarið einfalt: Allar.

Á myndinni má sjá Jón fagna því er hann fór holu í höggi í fjórða sinn.